SAV hlýtur 1. verðlaun í alþjóðlegri samkeppni um viðbyggingu Menntaskólans við Sund

SAV hlaut nýverið fyrstu verðlaun í samkeppni um viðbyggingu menntaskólans við Sund (sjá http://www.menntamalaraduneyti.is/frettir/forsidugreinar/nr/7183).

Nýr inngangur Menntaskólans við Sund

Höfundar voru Gestur Ólafsson, arkitekt og skipulagsfræðingur, Akos Doboczy, arkitekt og Zoltán V. Horváth, arkitekt. Í umsögn dómnefndar um tillöguna segir:

„Hrífandi og hnitmiðuð tillaga sem vinnur einstaklega vel með áherslur skólans svo úr verður heildstæð og spennandi skólabygging. Höfundar hafa náð því markmiði að hanna byggingu sem fellur vel að framsæknu skólastarfi, samhliða því að gera hana að góðum granna í hverfinu.Viðbyggingin er í grunninn byggð á einföldum, uppbrotnum formum þannig að hún samræmist „skala“ núverandi skólabyggingar. Virðing er borin fyrir því sem fyrir er og sem dæmi er þetta er sú tillaga sem breytir hvað minnst útliti núverandi stjórnunarálmu. Gott samspil er á milli núverandi bygginga og viðbyggingar og skírskotar hún að hluta til núverandi húsa bæði í formum og efnisvali. Viðbyggingin hefur þó sín sérkenni m.a. sólskerma úr lerkivið og frjálslega formað bókasafn. Efnisval er mjög fallegt og mynda hvítir steyptir fletir ásamt lerki og grasþökum aðlaðandi umgjörð. Notkun viðar á svölum, í aðalanddyri sem og utanhúss, gefur húsinu hlýlegt yfirbragð. Við nánari útfærsluá lerkihjúp þarf að huga vel að sýn út úr íverurýmum.

Grunnmyndir viðbyggingarinnar eru einfaldar, skýrar og vandvirknislega unnar. Miðlægur salur og breiður gangur í núverandi stjórnunarálmu tengja viðbyggingu við eldri byggingar. Staðsetning steinasafns skólans í mjóum innigarði, á milli salar og gangs, er mjög frumleg lausn sem gerir áherslu skólans á náttúruvísindi hátt undir höfði. Nýtt og reisulegt aðalanddyri tengir vel saman allar hæðir nýbyggingar og verður til þess að aðalinngangur verður áberandi kennileiti sem býður menn velkomna í skólann. þaðan eru góð sjónræn tengsl á milli hæða sem gefa rýminu aukið vægi. Inn af aðalanddyri er skáli sem tengist fjölnotasal og bókasafni. Galli er þó hversu lokaður salurinn er frá skálanum og nauðsynlegt að opna þar betur á milli. Auk þess er skálinn fullstór og æskilegt að nýta það svæði betur.

Óreglulegt form bókasafnsins myndar áhugavert mótvægi við annars beinar línur skólahússins. Höfundar sækja form þess í nafn safnsins „viskusteinn“ og er því ætlað að undirstrika mikilvægi bóka- og upplýsingamiðstöðvar skólans. Staðsetning safnsins er ágæt fyrir kennslustofur nýbyggingar en nokkuð afskekkt fyrir stofur í eldri byggingum. Kostur væri ef safnið yrði dregið betur inn í skálann sem þá um leið minnkar og þar með vægi þessa hliðarinngangs. Við slíka hliðrun minnkar einnig útisvæðið framan við skálann en stærð þess og staðsetning, undir útkragandi efri hæðum, virkar ósannfærandi.

Kennslurými eru sérstaklega vel skipulögð. Þó þarf að opna hópvinnurými meira en grunnmyndir sýna. Þá má einnig draga í efa staðsetningu stakrar kennslustofu og vinnuherbergis kennara við hlið aðalinngangs. Á það skal bent að dyr að kennslustofum eiga að opnast út. Þá væri það kostur ef tenging við þrístein á 1. og 2. hæð yrði rýmkuð. Flæði um byggingarnar er mjög gott og höfundar hafa leyst vel mismunandi hæðarkóta á milli bygginga. Byggingin virðist fara örlítið út fyrir byggingarreit í grunnplani til suðvesturs og innkeyrslu á lóð er breytt frá gildandi deiliskipulagi.

Lóð skólans er falleg og frumlega skipulögð. Hún kemur til með að þjóna jafnt nemendum sem íbúum hverfisins. Útfærsla á mögulegum bílakjallara er vel leyst. Framsetning tillögunnar er falleg, einföld og skýr, en útlit og snið eru þó helst til dökk.“

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *